Verkmenntaskólinn á Akureyri
VEL-103

Eldsneytisolía fyrir smábáta

Á síðari árum hefur sjósókn á smábátum aukist yfir vetrarmánuðina. Á sama tíma hafa olíufélögin verið að bjóða upp á fleiri valkosti en áður hvað varðar eldsneytisolíur. Hér áður fyrr voru aðallega á markaðnum gasolía og svartolía. Það þýddi að það lá nokkuð ljóst fyrir um hvora olíutegundina var að ræða hverju sinni. Til viðbótar þessum tveim olíutegundum hafa bæst við tvær olíutegundir ódýrari en gasolían en dýrari en svartolían. Þessar olíutegundir hafa gengið undir ýmsum nöfnum. Mismunandi milli olíufélaga. Frá Shell nefnast þessar olíur "Skipagasolía" (Marine Gasoil) og "SD Skipaolía" (Marine Diesiloil)

Esso nefnir (Marine Gasoil) "Flota-gasolíu" og (Marine Diesiloil). "Flota-dísilolíu". Olís "Útgerðarolía" er svipuð "Skipagasolíunni" frá Shell og "Flota-gasolíunni frá Esso þ.e.a.s. (Marine Gasoil).
Móðumark eða skýmark (cloud point) er það hitastig sem olían hefur þegar vaxskristallar hennar verða sýnilegir og olían verður "skýjuð".
Stíflumark (Cold Filter Plugging Point) er það hitastig sem olía er við þegar vax í henni kristallast að því marki að síur stíflast.
Rennslismark er það hitastig sem olía er við í fljótandi formi.
Ekki er rétt að nefna ákveðnar tölur hér varðandi þessi mörk vegna þess að þau geta verið örlítið breytileg milli olíufélaga og olíufarma. Til skamms tíma voru þessi mörk ekki þau sömu sumar og vetur. Rannsóknarnefnd hvetur menn því til að afla þessara upplýsinga hjá olíufélögunum á hverjum tíma.

Mikilvægt er að ruglast ekki á "Marin Gasoil" og "Marin Diesiloil". Sú síðarnefnda er sérstaklega ætluð til brennslu í stærri skipum og þarf búnað til að hita hana og skilja fyrir notkun. Þessi olía hefur verið talinn vænlegur kostur á skipum sem ekki hafa útbúnað til að brenna svartolíu en sóst er eftir ódýrari olíu en "Marin Gasoil" . Þessi olía getur líka hentað vel þar sem brennt hefur verið svartolíu en gengið illa.

Samkvæmt upplýsingum sem fengust hjá fulltrúum olíufélaganna er lögð áhersla á gæði þeirrar gasolíu sem félögin selja. Fylgst er með gæðum olíunnar frá hreinsunarstöð til notenda. Fyrst er tekið sýni af olíunni áður en hún fer í skip úti, síðan um borð í skipinu og loks úr birgðartönkum olíufélaganna hér heima.

Til að tryggja að olían sé án vatns og annarra útfellinga er olíunni ávallt dælt á olíubíla efst úr birgðargeymi með flotsogi. Fylgst er reglulega með vatnsmagni í olíunni á afgreiðslugeymunum.

Þetta er allt saman gott og blessað.

Þegar upp hafa komið vandamál sem rakin hafa verið til eldsneytisolíu hafa vaknað grunsemdir um að afgreiðslumenn olíunnar hafi ekki í öllum tilfellum vitað nákvæmlega hvaða olíu þeir höfðu undir höndum og má þá spyrja sig hvort meðhöndlun þeirra á olíunni sé ætíð eins góð og æsklegt má telja.

Hönnun kerfa um borð í bátunum getur verið ábótavant.

Nokkrar ábendingar varðandi úrbætur á eldsneytiskerfinu.

Algengasta vandamálið er þó mannlegi þátturinn. Stjórnendur smábáta hafa oft litla þekkingu á vélbúnaði. Umönnun kerfanna verður þá ábótavant og minniháttar vandamál hafa oft orðið að stórvandamálum vegna vankunnáttu.


Nokkur atriði sem hafa má í huga varðandi umönnun kerfanna.

Smábátar eru oft ekki notaðir í langan tíma yfir vetrartímann. Mikil veðrabrigði eru hér á landi eins og allir vita. Frost annan daginn en þýtt hinn. Það sem gerist þegar olíugeymir verður fyrir hitabreytingum er að loft þéttist og verður að vatnsdropum innan á yfirborði geymisins. Þannig að vatn myndast í geyminum. Til að forðast þetta er best að hafa sem mest eldsneyti á geyminum og tappa reglulega undan. Það er góð regla að tappa alltaf undan áður en farið er í róður. Þegar bátur er ekki í notkun þarf líka að tappa reglulega undan til að tryggja að ekkert vatn myndist í geyminum. Vatn sem safnast fyrir í olíugeymi myndar sora, veldur riðmyndun og "dísilpest" getur komist í olíuna. Komist þessi sori og riðdrulla inn á síur og síðan inn á olíukerfi vélarinnar eyðileggur þetta kerfið meira eða minna og veldur gangtruflunum. Það má líka leiða hugann að því að dísilvélar ganga ekki á vatni. Þar sem verið er að brenna "Marin Gasoil" er enn mikilvægara að ekki komist vatn í olíuna vegna þess að vatnið getur valdið því að parafínið sem mikið er af í þessari olíu hleypur mun fyrr í kekki og stíflur myndast.

Dísilpest

Dísilpest getur myndast á skilum eldsneytisolíu og vatns. Um er að ræða smálífverur sem þurfa vatn til að lifa. Ekki er hægt að verjast því að bakteríur komist í snertingu við olíuna þar sem þær berast með loftinu og eru mjög algengar í umhverfinu. Þar sem vatn er til staðar fá bakteríurnar tækifæri til að þroskast.

Hvar myndast dísilpest?

Öll gasolía og aðrar olíuvörur geta smitast af bakteríum, en eins og fyrr segir þrífast bakteríurnar þar sem vatn er til staðar. Olíugeymar sem ekki er tappað undan reglulega eru þessvegna varhugaverðari heldur en geymar þar sem þess er gætt að tappa reglulega undan vatni sem hefur þéttst úr loftinu og fallið á botninn.

Hvernig lýsir dísilpestin sér?

Þar sem olían er lífrænt efni úr jurtaleifum sem hafa þjappast saman í árþúsundir við mikinn þrýsting geta bakteríurnar breytt henni í ólífrænt efni þ. e. bakteríurnar bókstaflega "éta" olíuna og eftir verða ýmis úrgangsefni. Þessi úrgangsefni (slamm) geta verið mjög tærandi fyrir málma og sést það oft í olíugeymum sem tæringarholur í stað venjulegs yfirborðsryðs. Í alvarlegum tilvikum stíflast olíusíur og í verstu tilfellum getur þetta orðið svo alvarlegt að olíudælur og spýtlar (spíssar) eyðileggjast.

Hvernig er hægt að komast hjá dísilpest?

Samkvæmt upplýsingum frá olíufélögunum eru reglulega teknar prufur úr birgðarhylkjum til að tryggja að olía sem afgreidd er sé ekki sýkt. Það sem hinn almenni notandi getur gert til að komast hjá dísilpest er eins og áður kemur fram að tappa reglulega undan tönkum. Víða eru aðstæður þannig að erfitt er að tappa vatni nægjanlega vel undan. Það sem þá er hægt að gera er að fylgjast vel með vatnsskiljum og síum. Mun betra er að vera með ryðfría tanka vegna minni tæringar í þeim en tönkum úr járni.

Hvað er hægt að gera þar sem dísilpest hefur myndast?

Þar sem staðfest hefur verið að dísilpest sé á ferðinni er hægt að setja í hana efni sem drepur bakteríurnar. Mjög lítið þarf af þessu efni og þegar því hefur verið blandað í olíuna þarf að koma olíunni um allt kerfið til að sótthreinsa það. Þessi einfalda aðgerð getur verið nægjanleg, en stundum þarf flóknari ráðstafanir til að ráða niðurlögum pestarinnar.

Ath: Notkun þessara bakteríudrepandi efna á ekki að framkvæma nema í samráði við ráðgjafa olíufélaganna.

Verkmenntasklinn Akureyri:
Vefsuger: Elas orsteinsson elias@vma.is